Innlent

Nærri níutíu vilja á þing fyrir Pírata

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helgi Hrafn Jónsson og Birgitta Jónsdóttir eru tveir af þremur þingmönnum Pírata.
Helgi Hrafn Jónsson og Birgitta Jónsdóttir eru tveir af þremur þingmönnum Pírata. Vísir/Vilhelm
Næstum níutíu manns hafa gefið kost á sér í prófkjör Pírata á höfuðborgarsvæðinu sem fer fram í ágúst. Framboðsfrestur rennur út 1. ágúst og kosning stendur til 12. ágúst.

„Þetta er fólk úr öllum stéttum samfélagsins. Um þriðjungur eru konur,“ segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata. Í hópi þeirra sem hafi gefið kost á sér séu nemar, læknir og lögfræðingar. „Það er ennþá vika til stefnu þannig að ég gæti alveg trúað því að það ætti eftir að bætast í hópinn,“ segir Sigríður Bylgja.

Píratar samþykktu að halda sameiginlegt prófkjör fyrir höfuðborgarkjördæmin, Reykjavík suður, Reykjavík norður og Suðvesturkjördæmi. Viðhafður yrði svokallaður dreifilisti. Hann virkar þannig að sá sem nær fyrsta sætinu í prófkjörinu getur valið sér í hverju af kjördæmunum þremur hann býður sig fram. Sá sem er í öðru sæti velur á milli þeirra tveggja sem eftir standa og sá sem er í þriðja sæti endar svo í fyrsta sæti á lista þess kjördæmis sem eftir stendur.

Fyrstu þrjú sætin í prófkjörinu gefa því öll fyrsta sætið hvert í sínu kjördæmi. Fjórða til sjötta sæti gefa svo annað sætið.

Það kemur Sigríði Bylgju ekki á óvart hve margir hafa gefið kost á sér í prófkjörinu. Margir taki þátt í grasrótarstarfinu og flokkurinn hafi notið fylgis í skoðanakönnunum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×