Erlent

Æstur múgur drekkti lögregluþjóni

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðskilnaðarsinninn Burhan Wani féll í bardaga við indverska herinn á föstudaginn.
Aðskilnaðarsinninn Burhan Wani féll í bardaga við indverska herinn á föstudaginn. Vísir/EPA
Minnst 23 eru látnir eftir átök í umdeilda héraðinu Kashmir um helgina. Óttast er að ofbeldið muni stigmagnast eftir að æstur múgur ýtti bíl lögregluþjóns út í á samkvæmt lögreglu. Lögregluþjónninn drukknaði.

Minnst 400 eru sagðir hafa slasast.

Átökin má rekja til þess að háttsettur og vinsæll aðskilnaðarsinni féll í skotbardaga við indverska herinn á föstudaginn. Um er að ræða alvarlegustu ofbeldisöldu frá árinu 2010 þegar rúmlega hundrað manns létu lífið í mótmælum gegn stjórn Indlands.

Bæði Indland og Pakistan gera tilkall til héraðsins og stjórna löndin sitthvorum hluta þess. Meirihluti íbúa þess eru múslimar og hafa samtök verið stofnuð til að berjast fyrir samruna við Pakistan.

Lögreglan segir að mótmælendur hafi ráðist á lögreglustöðvar, bíla, slökkviliðsbíl og lestarstöð. Þeir hefðu kveikt í eigum ríkisins og bílum. Þá segir lögreglan að skotið hafi verið á lögregluþjóna og handsprengjum kastað að þeim. Útgöngubann hefur verið komið á víða í héraðinu.

Aðgerðasinnar í héraðinu segja hins vegar að lögreglunni sé um að kenna fyrir ofbeldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×