Fótbolti

Cantona syngur "Let it go“ og er ekki í vafa: Ísland átti lið Evrópumótsins 2016 | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Cantona, eða „Commissioner of Football" eins og hann hefur kallað sig á Eurosport á meðan Evrópukeppnin í fótbolta hefur verið í gangi, er nú búinn að gera upp EM í Frakklandi. Cantona hefur slegið í gegn í myndböndum sínum á Eurosport.

Eric Cantona hefur oftast verið nefndur Kóngurinn af Manchester þar sem hann fór á kostum með United-liðinu á fimm sigursælum tímabilum en Frakkinn hefur einnig farið á kostum í þessari skemmtilegu myndbandaseríu á Eurosport.

Cantona lék með Manchester United á árunum 1992 til 1997, skoraði 70 mörk í 156 deildarleikjum og vann sex stóra titla með félaginu.Eric Cantona náði aðeins að taka þátt í einu Evrópumóti með Frökkum en það var EM 1992 í Svíþjóð þar sem franska liðið sat eftir riðlinum.

Cantona kom hinsvegar að nýloknu Evrópumóti í heimalandi sínu með stafinn og grínið að vopni þar sem hann fór reglulega yfir það sem gerðist á mótinu og setti atburðina í samhengi við sinn feril og sitt sjónarhorn á fótboltann.

Í síðasta þætti sínum gerir Cantona upp úrslitaleikinn á milli Portúgal og Frakklands og síðan í framhaldinu deilir hann út verðlaunum sínum í uppgjöri þáttarins á EM 2016.

Húmorinn er þarna í fyrirrúmi og það vantar ekki sjálftraustið í Cantona eins og vanalega Hann hefur eitthvað dundað sér við að leika í myndum síðustu árin og sú æfing hefur greinilega skilað sér.

Cristiano Ronaldo og fiðrildin fá sem dæmi sitt pláss í þættinum sem og að hann notar enn einu sinni tækifæri til að gera grín að enska landsliðinu sem datt svo óvænt út á móti því íslenska í sextán liða úrslitunum.

Það er hinsvegar ekkert nýtt við það að Frakkinn njóti sín vel í sviðsljósinu og fyrir framan myndavélarnar.

Okkur Íslendingum þykir vænst um það að sjá að Eric Cantona valdi Ísland besta lið mótsins en hér fyrir neðan má sjá hvernig hann blandar saman strákunum okkar og laginu „Let it go" úr Disney-teiknimyndinni Frozen.

Það er hægt að sjá þetta stórskemmtilega myndband hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×