Innlent

Telja að Sigríður Björk hafi byggt ákvörðun sína á orðrómi en ekki gögnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Ernir
Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðsins var ekki heimilt að víkja lögreglufulltrúa tímabundið úr starfi í kjölfar þess að héraðssaksóknari hóf rannsókn á ætluðum brotum mannsins í starfi. Kemur þetta fram í úrskurði innanríkisráðuneytisins um málið en ráðuneytið hefur fellt ákvörðun lögreglustjórans úr gildi. Fyrst var greint frá málinu í hádegisfréttum RÚV.

Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram, samkvæmt frétt RÚV, að Sigríður Björk hafi fyrst og fremst byggt ákvörðun sína á orðrómi frekar en gögnum. Þá hafi hún með ákvörðuninni brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Maðurinn starfaði í fíkniefndadeild lögreglunnar en honum var vikið tímabundið frá störfum í janúar síðastliðnum þar sem hann var sakaður um að hafa átt óeðlileg samskipti við brotamenn. Auk þess að vera vikið úr starfi fór maðurinn á hálf laun.

Fyrir rúmum mánuði var greint frá því að héraðssaksóknari hefði fellt niður málið á hendur lögreglumanninum. Ekkert saknæmt kom í ljós við rannsókn málsisn sem var ítarleg, samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara. Þekktur aðili úr undirheimunum hafði einnig stöðu sakbornings í málinu sem má rekja til þess að stór hluti fíkniefnadeildar lögreglu taldi sig ekki geta starfað með umræddum lögreglufulltrúa.

Sá gegndi um tíma yfirmannsstöðu bæði í upplýsingadeild og fíkniefnadeild sem er gagnrýnisvert fyrirkomulag sem hefur síðan verið breytt. Átta lögreglumenn héldu á fund ríkislögreglustjóra í fyrravor vegna viðbragðsleysis sem þeir töldu sig finna fyrir hjá yfirmönnum sínum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gagnvart ásökunum á hendur fulltrúanum.


Tengdar fréttir

Rannsókn á hendur lögreglufulltrúa felld niður

Lögreglufulltrúi sem sakaður var um að hafa rangt við í samskiptum við upplýsingagjafa verður ekki ákærður fyrir brot í starfi. Ekkert saknæmt kom fram við rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×