Fótbolti

Frammistaða Íslands og Wales á EM breytti ekki skoðun Joachim Löw

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins og íslenska landsliðið á EM.
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins og íslenska landsliðið á EM. Vísir/Getty
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, horfði upp á sitt lið falla út keppni í Marseille gærkvöldi. Þýska landsliðið tapaði þá 2-0 í undanúrslitaleik EM á móti gestgjöfum Frakka.

Það vakti athygli fyrr í mótinu þegar Joachim Löw gagnrýndi þá breytingu að fjölga liðum í úrslitakeppni EM og hann er enn á sömu skoðun þrátt fyrir að Ísland og Wales hafi bæði komist alla leið í átta liða úrslitin á sínu fyrsta Evrópumóti.

Ísland og Wales duttu á endanum út fyrir Frakklandi og Portúgal sem mætast síðan í úrslitaleiknum í París á sunnudaginn kemur.

Joachim Löw stendur hinsvegar harður á því að gæði fótboltans hafi minnkað við þessa breytingu úr því að fara úr 16 liðum upp í 24.

„Ég tel að það sé of mikið að hafa 24 lið," sagði Joachim Löw í viðtali við sport1.de eftir tapleikinn í gær.

Þjóðverjar mættu tveimur nýliðum á EM í Frakklandi og unnu þá báða, fyrst 1-0 sigur á Norður-Írlandi og svo 3-0 sigur á Slóvakíu í sextán liða úrslitunum.  

Þýskaland sló síðan Ítalíu út í vítakeppnin en tapaði síðan undanúrslitaleiknum á móti Frakklandi.

„Nú verður heimsmeistarakeppnin stækkuð upp i 40 lið og þetta er alltaf að verða stærra og stærra. Það verður alltaf vandmál þegar lengra líður." sagði Löw.

„Stundum fær maður á tilfinninguna að þessar breytingar séu ekki að gera fótboltanum gott. Þetta kemur niður á gæðunum," sagði Joachim Löw.

Þetta var þriðja Evrópukeppni hans með þýska liðið en Þjóðverjar urðu í 2. sæti 2008 en hafa fallið út úr átta liða úrslitum undanfarin tvö Evrópumót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×