Fótbolti

Aron Einar: Mun muna eftir þessu kvöldi þar til ég dey

Tómas Þór Þórðarsson í París skrifar
Aron fagnar að leikslokum í kvöld.
Aron fagnar að leikslokum í kvöld. Vísir/Vilhelm
„Þetta er ákveðinn léttir, við settum okkur háleit markmið um að komast áfram og það er búið að tala um þetta heillengi. Þetta verða bara stærri og stærri leikir héðan í frá,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, kampakátur eftir 2-1 sigur á Austurríki í kvöld.

„Við náðum settu markmiði og núna er bara næsta markmið og það verður erfitt. Við mætum góðu liði Englands sem er búið að spila vel, það þekkja allir þessa leikmenn sem við erum að fara að spila vel og það verður aukin skemmtun að fá að mæta þeim.“

Aron segist aldrei eiga eftir að gleyma fagnaðarlátunum eftir leik.

„Þegar Arnór skoraði fór ég í minn eigin heim en svo labbar maður að áhorfendunum og sér allt fólkið sitt og þá veit maður að maður mun aldrei gleyma þessum stundum. Þetta er akkúrat það sem ég vildi og ég mun muna eftir þessari stund þar til ég dey.“

Aron var ekki lengi að svara hvort leikmenn yrðu lengi niður á jörðina eftir sigur eins og þennan.

„Það verður lítið mál að koma sér aftur niður á jörðina og það kemur líklegast á morgun en við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir Englendingana. Það er frábært að fá þennan auka dag í hvíld, það á eftir að telja því við hættum ekki að hlaupa í kvöld,“ sagði Aron sem svaraði í léttum tón þegar hann var spurður hvort íslenska liðið hefði verið draumamótherji í 16-liða úrslitum.

„Við erum ennþá taplausir, það verður að átta sig á því að við höfum ekki enn tapað eftir þrjá leiki,“ sagði Aron glottandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×