Fótbolti

Lars: Sérstakara að vera með Íslandi á stórmóti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck er á sínu sjöunda stórmóti en þetta er það sérstakasta.
Lars Lagerbäck er á sínu sjöunda stórmóti en þetta er það sérstakasta. vísir/Vilhelm
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara íslenska landsliðsins í fótbolta, sagði á blaðamannafundi í Annecy í dag að vera með Ísland á stórmóti væri meira sérstakt en að vera á stórmóti með Svíþjóð eða Nígeríu.

Lars er á sínu sjöunda stórmóti á ferlinum. Hann fór fimm sinnum með Svía; þrisvar EM og tvisvar á HM, en síðast stýrði hann Nígeríu á HM 2010 í Suður-Afríku.

„Það hefur verið gaman að fara með öllum þessum þjóðum á stórmót. Það er alltaf sérstakt en þetta ferðalag með Íslandi hefur verið algjörlega frábært,“ sagði Lars sem tók við íslenska liðinu árið 2011.

„Það var stórt að fara með Svíum á stórmót og Nígeríu líka en þetta er sérstakara. Við erum meiri „underdog“ en við vorum þegar ég fór með Svíþjóð og Nígeríu.“

„Ég gleðst svo mikið fyrir hönd leikmannanna, starfsfólksins og sérstaklega stuðningsmannanna. Það er stór prósenta af Íslandi komin til Frakklands. Þetta hefur verið mjög sérstakt,“ sagði Lars Lagerbäck.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.