Fótbolti

Ronaldo klúðraði víti og Portúgal enn án sigurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það hefur lítið gengið hjá Cristiano Ronaldo á EM.
Það hefur lítið gengið hjá Cristiano Ronaldo á EM. vísir/epa
Cristiano Ronaldo brenndi af vítaspyrnu þegar Portúgal og Austurríki gerðu markalaust jafntefli í seinni leik dagsins í F-riðli á EM 2016 í Frakklandi.

Portúgalar eru því með tvö stig fyrir lokaumferðina í riðlakeppninni, líkt og Íslendingar, en Austurríki er aðeins með eitt stig. Ungverjar eru á toppi F-riðilsins með fjögur stig.

Það gekk bókstaflega ekkert upp hjá Ronaldo í leiknum á Parc des Princes í kvöld. Hann skaut og skaut og reyndi og reyndi en án árangurs.

Ronaldo skoraði reyndar á 85. mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Nani skallaði einnig í stöngina í fyrri hálfleik og Robert Almer, markvörður Austurríkis, varði nokkrum sinnum vel.

Portúgalir fengu sitt besta færi á 79. mínútu þegar ítalski dómarinn Nicola Rizzoli dæmdi vítaspyrnu eftir að Martin Hinteregger togaði Ronaldo niður innan vítateigs. Real Madrid-maðurinn fór sjálfur á punktinn en skaut í stöng.

Síðustu tveir leikirnir í F-riðli fara fram á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×