Innlent

Erfitt að vita af barninu sínu í brasilísku fangelsi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Íslenskt par hefur verið dæmt í rúmlega fimm ára fangelsi í Brasilíu fyrir að reyna að smygla fíkniefnum úr landinu. Móðir stúlkunnar segir málið hafa reynst fjölskyldu hennar erfitt.

Parið var handtekið á gistihúsi í Fortaleza í Brasilíu á milli jóla og nýárs. Brasilískir fjölmiðlar greindu frá handtöku parsins um áramótin. Þau voru handtekin eftir ábendingu og fundust fjögur kíló af kókaíni í fórum þeirra. Talið er að parið hafi ætlað að smygla fíkniefnunum til Evrópu.

Maðurinn, sem heitir Hlynur Kristinn Rúnarsson og er tuttugu og sjö ára, og konan sem heitir Birgitta Gyða Bjarnadóttir og er tvítug, voru í gær dæmd af brasilískum dómstóli í ríflega fimm ára fangelsi.

Esther Ósk Estherardóttir móðir Birgittu sagði í samtali við fréttastofu í dag að málið allt hefði reynt á fjölskylduna. Það sé erfitt að vita af barninu sínu í brasilísku fangelsi sérstaklega þar sem aðstæður séu mjög slæmar. Hún segir þó létti að dóttir sín hafi ekki hlotið lengri dóm en hún hafi búið sig undir að svo gæti farið. Hún segir marga hafa staðið við bakið á Birgittu og stutt hana. Umræðan um málið hafi þó tekið á fjölskylduna.

Birgitta hefur nú setið í hálft ár í fangelsi í Brasilíu sem dregst væntanlega frá dómnum. Esther segir að mögulega geti hún losnað úr fangelsi eftir tvö eða tvö og hálft ár. Hún þyrfti þó að vera lengur í Brasilíu eða á meðan á reynslulausn stæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×