Innlent

Hafnfirðingar fá ekki að sýna EM á Thorsplani

Jakob Bjarnar skrifar
Hafnfirðingar leita allra leiða svo unnt sé að varpa fótboltaveislunni sem EM er á skjá á Thorsplani.
Hafnfirðingar leita allra leiða svo unnt sé að varpa fótboltaveislunni sem EM er á skjá á Thorsplani.
„Við ætluðum að blása til fótboltaveislu á Thorsplani. En, það eru mjög stífar reglur um hverjir megi sýna,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs í Hafnarfirði. Til stendur, eða stóð, að sýna frá EM á Thorsplani, í hjarta Hafnarfjarðar, en ýmis ljón eru í vegi.

Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsti bæjaryfirvöld í Firðinum um það í morgun að eins og staðan sé í dag hafi rétthafi útsendingar ekki hug á að vera með útsendingu á Thorsplani og að reglur UEFA varðandi útsendingar á EM 2016 eru stífar og takmarka hverjir mega standa að slíkri útsendingu. Áfram verði unnið að málinu og leitað að áhugasömum aðila sem uppfyllir viðmið UEFA sem hefði hug á að sjá um verkefnið.

Rósa segir Vísi mjög stífar reglur í gildi um hverjir mega sýna, og „styrktaraðilar á svona viðburði megi ekki vera samkeppnisaðilar stuðningsaðila UEFA og EURO16 sem eru ekki endilega þeir sömu og KSÍ.“

Og, þá má ekkert gera svo sem selja bjór eða annað slíkt sem mönnum finnst vert að hafa við höndina þegar horft er á fótbolta. Menn meta það sem svo að þarna séu verulegir hagsmunir í húfi. Þetta er sem sagt ekki eins og fólk sé að færa sjónvarp sitt út í garð?

„Ekki beinlínis,“ segir Rósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×