Innlent

Bíður ákæru fyrir að setja Sönn íslensk sakamál á Deildu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lítil hreyfing hefur verið á málinu frá árslokum 2014.
Lítil hreyfing hefur verið á málinu frá árslokum 2014. vísir
Hæstiréttur hafnaði í dag kröfu manns um að fá tölvu sína, farsíma og flakkara afhentan úr haldi lögreglunnar. Tækin hafa verið í vörslu lögreglunnar frá 24. mars 2014. 

Maðurinn liggur undir grun um að hafa afritað íslenska sjónvarpsþætti og deilt þeim á skráskiptasíðu. Upplýsingar um hvaða þætti ræðir hafa verið afmáðar úr dómi Hæstaréttar og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem birtur er á vefsíðu Hæstaréttar.

Samkvæmt heimildum Vísis eru hinir umræddu þættir úr þáttaröðinni Sönn íslensk sakamál sem sýndir voru á Skjá einum á þessum tíma. Umræddum þáttum var deilt gífurlega á deildu.net en áætlað er að þeir hafi verið sóttir um 90.000 sinnum og að allt að 12.000 manns hafi sótt hvern þátt fyrir sig. Framleiðslu þeirra var að lokum hætt enda stóðu þeir ekki undir kostnaði sökum ólöglegs niðurhals.

Rannsókn málsins hófst í febrúar 2014. Hinn kærði var yfirheyrður í þrígang á því ári en frá því í desember 2014 hefur lítil hreyfing verið á málinu þar til degi áður en það var tekið til úrskurðar í héraðsdómi.

Í málflutningi lögreglunnar fyrir dómi kom fram að málið væri komið í ákærumeðferð og ákæru væri að vænta fyrir lok júnímánaðar. Sérfræðingar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að greiningu og rannsóknum á gögnum á tölvunum og það útskýrði drátt málsins.

Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að dráttur á rannsókn málsins væri aðfinnsluverður en í ljósi þess að ákæra verður gefin út áður en júní er á enda var ekki fallist á að fella haldlagninuna úr gildi.

Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vildi hvorki staðfesta né neita að umræddir þættir væru Sönn íslensk sakamál.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×