Innlent

Fimm tekjuhæstu myndir ársins sóttar 65 þúsund sinnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Fimm tekjuhæstu kvikmyndir þessa árs höluðu samanlagt inn 4.424 milljónir Bandaríkjadala. Það reiknast tæplega 509 milljarðar króna. Þessum fimm myndum hefur samkvæmt gróflegri könnun Vísis, verið niðurhalað um 65.000 sinnum á torrent síðunni Deildu.net.

1. Iron Man 3 (1,2 milljarðar dala)

Sótt um 10 þúsund sinnum.

2. Despicable Me 2 (919 milljónir dala)

Sótt um 20 þúsund sinnum.

3. Fast & Furious 6 (789 milljónir dala)

Sótt 5-6 þúsund sinnum.

4. The Hunger Games:Catching Fire (772 milljónir dala)

Sótt hátt í þúsund sinnum – Myndin er ekki komin á dvd.

5. Monsters University (744 milljónir dala)

Sótt um 15 þúsund sinnum.

Fréttastofan hafði samband við Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóra SMÁÍS og spurði hann hvort niðurhal þetta hefði áhrif á tekjur kvikmynda. „Capacent könnun frá árinu 2011 sýnir að tveir af hverjum tíu hefði keypt efnið hefðu þeir ekki haft aðgang að því ókeypis í gegnum síður eins og deildu.net,“ segir Snæbjörn.

„Það mætti líta á þetta allt sem tap, en strangt til tekið hefðu ekki allir sem sóttu efnið, keypt það. Þess vegna förum við oft eftir þessari könnun.“

Yfirleitt haldast í hendur vinsældir mynda og hve oft þær séu sóttar á netið, en þar skiptir líka máli í hvaða gæðum þær leka á netið og tímasetningin. Þar nefnir Snæbjörn dæmi um frönsku myndina Intouchables, sem kom út á síðasta ári. Sú mynd var komin á Deildu.net, með íslenskum texta, mjög fljótlega og jafnvel áður en hún var sýnd í bíóum hérlendis. Henni var mikið niðurhalað en þrátt fyrir það fékk hún mikla aðsókn í bíóhúsum.

Deildu.net er þó langt frá því að vera eina torrent síðan þar sem fólk getur sótt afþreyingarefni eins og kvikmyndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×