Innlent

Gagnrýna að ekki verði hægt að kjósa í Seljahverfi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Íbúum í Seljahverfi stendur ekki til boða að sækja kjörstað í hverfinu í júní.
Íbúum í Seljahverfi stendur ekki til boða að sækja kjörstað í hverfinu í júní. vísir/valli
Íbúum í Seljahverfi mun ekki standa til boða að sækja kjörstað í hverfinu fyrir forsetakosningarnar í júní. Ástæðan eru framkvæmdir í Ölduselsskóla og verður kjörstaðurinn því færður í íþróttamiðstöðina Austurbergi. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna þessa ákvörðun og segja Seljaskóla besta kostinn í stöðunni.

Áratugalöng hefð

„Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna kjósi að vísa frá tillögu Sjálfstæðisflokksins um að íbúum Seljahverfis verði gefinn kostur á því að sækja kjörstað í hverfinu líkt og áratugalöng hefð er fyrir,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins.

Þá segir að þegar lagt hafi verið til að þess í stað yrði kosið í Seljaskóla hafi þær upplýsingar verið gefnar að það væri ómögulegt. Þær upplýsingar hafi komið borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í opna skjöldu.

„Nánari athugun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins eftir fundinn leiddi í ljós að ekki hafi verið haft samband við forráðamenn í Seljaskóla í því skyni að kanna hvort unnt yrði að kjósa þar í stað Ölduselsskóla.“

Kjörstaður í Ölduselsskóla í næstu kosningum

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja jafnframt ólíklegt að framkvæmdir í Ölduselsskóla verði svo umfangsmiklar að þær útiloki skólann sem kjörstað við forsetakosningarnar. „Niðurstaðan er sú að íbúum Seljahverfis verður ekki gert kleift að sækja kjörstað í hverfinu við forsetakosningarnar 25. júní nk. eins og áratugalöng hefð er fyrir,“ segir þeir í bókuninni.

Borgarráðsfulltrúar meirihlutans segja í bókun sinni að erfitt verði að tryggja öryggi kjósenda og framkvæmd kosninganna í Ölduselsskóla. Íþróttamiðstöðin Austurbergi sé heppilegust þar sem aðstæður fyrir kjósendur og framkvæmd kosninganna séu framúrskarandi. Stefnt sé að því að kjörstaður verði á ný í Ölduselsskóla strax í næstu kosningum að framkvæmdum loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×