Erlent

Múslimi kosinn sem borgarstjóri í London

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Sadiq Khan vann fyrstu umferð borgarstjórnarkosninganna í Lundúnum. Í frétt Sky segir að tölfræðilega ómögulegt sé fyrir Khan að tapa seinni umferðinni.

Khan, sem er frambjóðandi Verkamannaflokksins, bar sigurorð af Zac Goldsmith, frambjóðanda Íhaldsflokksins. Khan fékk 44 prósent atkvæða og Goldsmith 35.

Kosið var í fjölda sveitarfélaga í Bretlandi í gær. Verkamannaflokkurinn var sigursælastur og Íhaldsflokkurinn var í öðru sæti. Frjálslyndir demókratar og þjóðernisflokkurinn UKIP sóttu einnig nokkuð á.

Reiknað var með að Verkamannaflokkurinn fengi slæma útreið í kosningunum sem yrði prófsteinn á stöðu Jeremy Corbyn. Stjórnmálaskýrendur telja að Corbyn hafi rétt sloppið fyrir horn eftir góðan árangur flokksins í London og Wales þó að hann hafi goldið afhroð í Skotlandi.

Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðarflokksins fagnaði sigri í gær þó að flokkurinn hafi misst meirihluta á þinginu.vísir/getty
Þá var kosið til þjóðþinga í Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi.

Skoski þjóðarflokkurinn missti meirihluta sinn á þinginu þrátt fyrir yfirburðasigur. Flokkurinn er einungis tveimur þingsætum frá meirihluta.

Ljóst er að flokkurinn mun halda áfram að fara með stjórnartaumana í Skotlandi. Reiknað var með að flokkurinn myndi freista þess að koma þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands aftur á dagskrá en Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, fór hljótt með það loforð í sigurræðu sinni þegar ljóst var að þjóðarflokkurinn hafði misst meirihluta sinn.

Í Wales vann Verkamannaflokkurinn yfirburðasigur, tveimur sætum frá hreinum meirihluta. Þá þóttu það tíðindi að UKIP fékk sjö menn kjörna.

Þegar þessi frétt var skrifuð var enn verið að telja atkvæði í kosningum um norður-írska þingið og of snemmt að tilgreina sigurvegara.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 7. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×