Innlent

Bjarni Ben fagnar framboði Davíðs: Fram undan skemmtileg barátta um stólinn á Bessastöðum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson og Davíð Oddsson voru báðir gestir í Sprengisandi í morgun.
Bjarni Benediktsson og Davíð Oddsson voru báðir gestir í Sprengisandi í morgun. Vísir/Ernir
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fagnar forsetaframboði Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Það hleypi miklu lífi í baráttuna og að fram undan sé skemmtileg og lífleg barátta um stólinn á Bessastöðum. Framboðið hafi þó komið sér nokkuð á óvart.

„Skemmst er að minnast að manni fannst heldur dauft yfir þessari forsetakosningabaráttu fyrir stuttu síðan. En það hefur aldeilis breyst,“ sagði Bjarni í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Aðspurður hvort hann styðji Davíð í baráttunni sagði hann afstöðu sína sjálfgefna. „Ja, ég held að menn geti svo sem alveg gert sér í hugarlund hvað ég mun gera gagnvart mínum fyrrverandi formanni og góða samstarfsmanni,“ sagði Bjarni. Hins vegar sé ekki rétt að gera forsetakosningarnar í sumar flokkspólitískar.

„Ég á svo sem alveg von á því að þegar Davíð á í hlut að menn vilji láta þetta verða með einhverjum hætti flokkspólitískar kosningar, sem þær eiga ekki að vera, hafa ekki verið sögulega, og mér fannst hann koma vel inn á í viðtalinu í morgun að sá sem vill verða forseti landsins hann þarf að höfða langt út fyrir flokkslínur til fólks. Þess vegna finnst mér það í senn eðlileg spurning til formanns Sjálfstæðisflokks hvort hann styðji hann en á sama tíma vil ég ekki vera sá sem dreg það eða set þessa kosningabaráttu af stað með því að formaður Sjálfstæðisflokksins sé fremstur í röðinni í stuðningsmannaliðinu,“ sagði hann. Spurningin svari sér þó að öllu leyti sjálf.

Hlusta má á viðtalið við Bjarna í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Davíð við Bjarna: "Kom þetta þér á óvart?"

Núverandi og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins mættust á Bylgjunni nú fyrir stundu þar sem Davíð spurði Bjarna hvort að framboð hans til embættis forseta Íslands hefði komið honum á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×