Lífið

Sigurvegari Ísland Got Talent: Sigurviss en í losti

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Jóhanna var himinlifandi þegar úrslitin voru tilkynnt og grét af hamingju.
Jóhanna var himinlifandi þegar úrslitin voru tilkynnt og grét af hamingju. Vísir/Daníel
Jóhanna Ruth, sigurvegari Ísland Got Talent, var í sjokki þegar Vísir náði af henni tali eftir að úrslitin voru kunngjörð. Sigurinn kom henni þó ekki á óvart.

Þannig að þú varst fremur sigurviss kannski? „Já," segir Jóhanna Ruth afdráttarlaus. „Ég er mjög ánægð.“

„Mér leið svo vel þegar dómararnir voru að segja alla þessa fallegu hluti um atriði mitt,“ segir Jóhanna. „Þau sögðu ekkert leiðinlegt.“

Jóhanna söng lagið Simply The Best með Tinu Turner og það má með sanni segja að ótrúlegt sé hversu kröftug og þroskuð rödd búi í þessum litla líkama en Jóhanna er aðeins fjórtán ára gömul.

„Ég er mjög glöð og bara spennt að vakna á morgun,“ segir Jóhanna. Hún segist ekkert geta mætt í skólann í fyrramálið vegna viðtala.

„Ég hef svo lítið getað mætt í skólann. Fæ ábyggilega núll í einkunn. Allt Ísland Got Talent að kenna,“ segir Jóhanna og hlær. „Nei grín.“

Jóhanna er tíu milljón krónum ríkari eftir kvöldið og fer peningurinn allur í námið – þó ekki bóklegt nám heldur tónlistina. „Ég ætla að læra á fullt af hljóðfærum og halda áfram að læra söng.“

Vinir Jóhönnu og fjölskylda eru himinlifandi fyrir hennar hönd. „Mamma fór að hágrenja.“ En ætlar Jóhanna að gera söng að sinni aðalatvinnu í framtíðinni: „Auðvitað! Það er draumurinn.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×