Innlent

„Forsætisráðherra segir bara nanananana“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson
Helgi Hrafn Gunnarsson Vísir/Pjetur
„Forsætisráðherra segir bara: Nanananana, komið með vantraust. Þá getum við rætt ríkisstjórnina!,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata á dag í umræðum undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag.

Stjórnarandstaðan hefur lagt fram vantraust á forsætisráðherra og ríkisstjórn hans og steig hver þingmaður stjórnarandstöðunnar upp í ræðustól á fætur öðrum til þess að gagnrýna Sigmund Davíð og þátt hans í Wintris-málinu sem varpað hefur verið ljós á undanförnum vikum.

Spurði Helgi Hrafn hvernig íslenskir ráðamenn ætluðu að fara að því að verja þetta.

„Mér þætti gaman að sjá stjórnarþingmenn reyna að verja það sem fram hefur komið. Að á Íslandi frammi fyrir alheimi ætlum við að láta þetta viðgangast að Alþingi og að ríkisstjórnin ætli bara að sitja hér eins og ekkert hafi í skorist,“ sagði Helgi Hrafn.

Þá spurði hann einnig hvernig þingmenn ætluðu að fara að því að verja forsætisráðherra.

„Ætla þingmenn að verja þessa hegðun og þetta ástand? Hvað ætla þeir að segja við erlenda ráðamennn þegar þeir koma hingað til lands? Þessi staða gengur ekki og eftir því sem forsætisráðherra hefur hagað sér í fjölmiðlum í dag gerir mann enn hneykslaðri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×