Lífið

Eins og sprungin blaðra

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Það er hægara sagt en gert að ætla að skrifa um eitthvað annað en ástandið í þjóðfélaginu akkúrat núna.

Ég held að það sé að minnsta kosti óhætt að segja að ég geti nú sett mig talsvert vel í fótspor og tilfinningalíf sprunginnar blöðru. Annars er eitt sem er alltaf hægt að tala um þegar manni dettur ekkert annað í hug og það er veðrið.





Gluggaveður

Ég er virkilega léleg í því að klæða mig eftir veðri. Vanhæfnin sætir auðvitað ákveðinni undrun sé litið til þess að ég hef verið búsett á þessu skeri síðan ég skaust í heiminn.

Mér tekst samt alltaf á ótrúlegan hátt að meta aðstæður vitlaust og enda annað hvort alltof vel klædd eða alltof illa klædd. Sem veldur því að mér er ýmist ískalt eða ég er við það að skilja við sökum ofhitnunar. Vegna veðurfars er það reyndar yfirleitt þannig að ég er of illa klædd.

Akkilesarhæll minn er gluggaveður og ég á svoleiðis í stökustu vandræðum með að klæða mig á morgnana.

Síðustu daga hef ég vaknað í slíkum funhita og sólskini að það mætti halda að ég væri staðsett á ströndinni á Tortóla. Ég klæði mig svo nánast í samræmi við það og um leið og ég stíg út átta ég mig á því að eitthvað hefur misfarist. 



Helgin

Annars er ég mjög spennt fyrir komandi helgi. Þá getur maður einbeitt sér hundrað prósent að því að fylgjast með fréttunum.

Það er nefnilega búið að vera örlítið hamlandi að hafa þurft að sinna öðrum erindum í vikunni eins og til dæmis að vinna. Maður má bara ekki missa af neinu – þá skilur maður bara alls ekkert hvað er í gangi.



Það er einmitt það sem kom fyrir mig í gær þegar ég fór út að borða með breskum vini mínum sem ég hef ekki séð í sex ár. Síðustu daga er maður auðvitað búinn að vera með puttann á púlsinum.

Tuttugu tabs opna í tölvunni, sífellt að re­fresha Twitter og fylgjast með öllum aukafréttatímunum á rauntíma. Ég myndi því segja að ég hefði verið temmilega vel upplýst um gang mála og fór glöð í bragði út að borða. Ég var úr nettengingu í rúma tvo klukkutíma og þegar ég kom aftur heim skildi ég ekkert. Bara alls ekki neitt. 

En ég er allavega mjög glöð með helgina og er ekki með neitt planað og mun því haga mínum frídögum í samræmi við næstu fréttir. Vonandi klædd í samræmi við veður í þetta sinn.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×