Lífið

Erpur í forsetaframboð?

Tinni Sveinsson skrifar
Erpi líst engan veginn á þá frambjóðendur sem gefið hafa kost á sér í embætti forseta.
Erpi líst engan veginn á þá frambjóðendur sem gefið hafa kost á sér í embætti forseta.
„Ertu að grínast? Það eru svona tuttugu pulsur í framboði. Ef Andri Snær fer ekki þá neyðist ég til að fara. Stundum hefur maður skyldum að gegna,“ segir rapparinn Erpur Eyvindarson, Blaz Roca, í viðtali við Halldór Halldórsson í þættinum Rapp í Reykjavík, sem verður frumsýndur seinna í mánuðinum.

„Ég er V-Kóp 200 mafakka. Svo kemur einhver kerling úr Kársnesinu og segist vera heimilisleg: „Ég ætla að vera í eldhúsinu á meðan ég tilkynni þetta.“ Sáuð þið þetta eldhús? Djöfulsins marmarageymsla. Þetta var eins og Aþena fyrir Krist. Hún hefði getað labbað inn í tóga,“ segir Erpur um það þegar Halla Tómasdóttir tilkynnti um framboð sitt á dögunum.

„Við nennum ekki þessu liði með peninga. Forsetinn á ekki að vera það gengi.“

Þáttaröðin Rapp í Reykjavík verður sýnd á Stöð 2 í apríl og maí. Í þáttunum verður leitast við að fanga tíðarandann í tónlistarmenningu Íslendinga.

Halldór Halldórsson, eða Dóri DNA, tekur Reykjavíkurdætur, Blaz Roca, Úlf Úlf, Shades of Reykjavík, Tiny, Gísla Pálma, Cell7, Bent, Emmsjé Gauta, Kött Grá Pjé og fleiri tali og reynir að fá botn í hversvegna Íslendingar séu orðnir rappsjúkir. Þáttunum er leikstýrt af Gauki Úlfarssyni en alls verða þeir sex talsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×