Erlent

Springsteen aflýsir tónleikum til að berjast gegn „salernislögunum“

Bjarki Ármannsson skrifar
Bandaríski rokksöngvarinn Bruce Springsteen hefur aflýst tónleikum sínum sem áttu að fara fram í borginni Greensboro í Norður-Karólínuríki um helgina af pólitískum ástæðum.
Bandaríski rokksöngvarinn Bruce Springsteen hefur aflýst tónleikum sínum sem áttu að fara fram í borginni Greensboro í Norður-Karólínuríki um helgina af pólitískum ástæðum. Vísir/Getty
Bandaríski rokksöngvarinn Bruce Springsteen hefur aflýst tónleikum sínum sem áttu að fara fram í borginni Greensboro í Norður-Karólínuríki um helgina af pólitískum ástæðum. Springsteen vill með þessu sýna samstöðu með transfólki í ríkinu, sem berst um þessar mundir gegn því sem fjölmiðlar vestanhafs kalla „salernislögin.“

Um er að ræða gríðarlega róttækt lagafrumvarp sem ríkið samþykkti í síðustu viku og hefur tvenns konar breytingar í för með sér fyrir transfólk og samkynhneigða. Annars vegar geta veitingastaðir, hótel o.s.frv. nú löglega vísað frá fólki vegna kynhneigðar þeirra og hins vegar er transfólki gert að nota salerni og búningsklefa í samræmi við það kyn sem skráð er á fæðingarvottorði þeirra, ekki því sem þau telja sig tilheyra.

Þetta er sérstakt vandamál í Norður-Karólínu þar sem ekki er hægt að breyta skráningu kyns á fæðingarvottorði nema með því að fara í kynleiðréttingaraðgerð.

Transtístari nokkur bendir á augljósa vankanta á lögunum.

Í tilkynningu sem Springsteen sendi frá sér í kvöld segir hann aðdáendum sínum að nú sé tími til að standa með þeim sem berjast gegn þessum lögum, sem hann kallar tilraun til að snúa við þeim árangri sem náðst hefur í að viðurkenna mannréttindi allra borgara landsins. Með það í huga hafi hann ákveðið að aflýsa tónleikunum sem áttu að fara fram á sunnudag.

„Sumt skiptir meira máli en rokktónleikar,“ skrifar hann. „Þessi slagur gegn fordómum og þröngsýni er dæmi um það. Þetta er sterkasta vopnið sem ég hef gegn þeim sem halda áfram að ýta okkur aftur á bak en ekki áfram.“

Dæmi um ódauðlegt Springsteen-lag sem íbúar Greensboro munu ekki heyra um helgina:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×