Fótbolti

Þjálfari Portúgals: Ronaldo er að spara mörkin fyrir EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo var súr eftir tapið í gær.
Ronaldo var súr eftir tapið í gær. vísir/getty
Cristiano Ronaldo brenndi af vítaspyrnu þegar Portúgal beið lægri hlut fyrir Búlgaríu, 0-1, á heimavelli í vináttulandsleik í gærkvöldi.  

Þetta er annar leikurinn í röð sem Ronaldo klúðrar víti en hann gerði það einnig í 4-0 sigri Real Madrid á Sevilla í spænsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Þrátt fyrir ófarirnar á vítapunktinum hefur Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals, litlar áhyggjur af Ronaldo og segir að hann hafi ávallt skorað mikið, bæði fyrir landslið og félagslið

„Hann skoraði ekki gegn Búlgaríu en hann er að spara mörkin fyrir EM í sumar,“ sagði Santos en fyrsti leikur Portúgals á EM í Frakklandi verður gegn Íslandi í St. Etienne þann 14. júní.

Ronaldo er á sitt fjórða Evrópumót en hann var fyrst með á EM 2004 í Portúgal þar sem heimamenn töpuðu fyrir Grikkjum í úrslitaleik.

Ronaldo hefur skorað sex mörk í 14 leikjum í lokakeppni EM og vantar aðeins þrjú mörk til að jafna Frakkann Michel Platini sem hefur skorað flest mörk (9) í lokakeppni EM frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×