Erlent

John Oliver tæklar deilu FBI við Apple um dulkóðun

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Oliver segir að Rússland og Kína muni líklega ekki sætta sig við að hafa ekki sömu tæki og Bandaríkin.
Oliver segir að Rússland og Kína muni líklega ekki sætta sig við að hafa ekki sömu tæki og Bandaríkin. Vísir
John Oliver tók fyrir deilu bandarísku alríkislögreglunnar FBI við Apple um hvort þvinga eigi fyrirtækið til að búa til bakdyr að snjalltækjum fyrirtækisins í þætti sínum í gærkvöldi. Deilt er um hvort með því að þvinga fyrirtækið til að búa til bakdyr sé ríkið komið með lykil að öllum snjalltækjum sem fyrirtækið hefur selt.

Eins og Vísir hefur áður fjallað um snýst deilan um hvort Apple eigi að skaffa FBI kóða sem gerir þeim kleift að gera ótakmarkaðar tilraunir til að giska á lykilorð á iPhone 5c síma Syed Rizwan Farook, annars þeirra  sem banaði fjórtán og særði 22 í San Bernardino í Bandaríkjunum í desember áður en lögregla skaut hann og konu hans til bana.

Oliver sagði að Bandaríkin myndi tæplega sitja ein að þessari tækni, verði hún til. „Mörg lönd í heiminum, þar á meðal Rússland og Kína, fylgjast með þessari umræðu og munu væntanlega búast við sambærilegum aðgangi,“ sagði hann. „Og eins og þú veist þá bera Rússland og Kína jafn mikla virðingu fyrir friðhelgi einkalífs og graðir unglingar í eitís gamanmynd.“

Sjálfur tók Oliver afstöðu með Apple í málinu. „Sterk dulkóðun hefur sína ókosti; vernda terrorista til dópsóla til barnaklámhringja. En ég tel að hættan á að veikja dulkóðun, jafnvel aðeins lítið, jafnvel aðeins fyrir stjórnvöld, er mögulega miklu verra,“ sagði hann en bætti við að hann teldi að Apple ætti að vera hreinskilnara um öryggishættur í tækjum fyrirtækisins. 

Stöð 2 sýnir þætti John Oliver og á 365 í samstarfi við HBO.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×