Innlent

Gervigreind getur nú unnið þá bestu í nánast öllum leikjum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Í rúmlega 2.000 ár hefur kínverska borðspilið Go verið sérsvið mennskra spilara, en ekki lengur. Eftir fimm sögulegar viðureignir er hugbúnaður úr smiðju Google, að nafni AlphaGo, líklega besti Go-spilari veraldar.

AlphaGo vann fjóra af fimm leikjum í Seúl gegn hinum víðfræga Go-spilara Lee Se-Dol. Í Go freista spilarar þess að tryggja sér svæði á 19x19-reita borði. Þrátt fyrir einfaldar reglur þykir Go vera afar krefjandi verkefni fyrir gervigreind eins og AlphaGo.

Kristinn R. Þórisson, dósent í tölvunarfræði við Háskóla Íslands.VÍSIR
Sigur AlphaGo er sagður marka tímamót í þróun sjálfvirkni og gervigreindar en Kristinn R. Þórisson, dósent í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands, segir svo ekki vera.

„Vegna þess að það tók þetta mörg frá því að skáktölva vann heimsmeistara þangað til að tölva hafði betur gegn heimsmeistara í Go. Þetta var í raun síðasta vígið í leikjagreind. Núna eru vélarnar komnar á það stig að þær geta unnið heimsmeistara í nánast öllum leikjum.“

En hver er tilgangurinn? Varla kallaði Google saman helstu sérfræðinga veraldar í gervigreind til að niðurlægja Go-spilara vítt og breitt. Staðreyndin er sú að miklir nýtingarmöguleikar fylgja allri sjálfvirkni, auk þess sem sérfræðingar hafa verið ósammála um hvort Go væri leysanlegt með tölvugreind.

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2, klukkan 18:30 í opinni dagskrá á Stöð 2.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.