Innlent

Rannveig Rist við hafnarvinnu í Straumsvík

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rannveig Rist og aðrir stjórnendur ISAL á bryggjunni í Straumsvík í dag
Rannveig Rist og aðrir stjórnendur ISAL á bryggjunni í Straumsvík í dag vísir/anton brink
Útskipun áls hófst við höfnina í Straumsvík um klukkan tvö í dag en samkvæmt úrskurði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá því í gærkvöldi mega 15 stjórnendur ISAL ganga í störf hafnarverkamanna sem lögðu niður störf í liðinni viku.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, fylgdist með þegar útskipunin hófst í dag en tólf stjórnendur voru við störf á höfninni í dag, þar á meðal Rannveig Rist, forstjóri ISAL, og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis og stjórnarmaður í stjórn Rio Tinto Alcan á Íslandi. Aðspurður hvernig honum þótti útskipunin ganga sagði Kolbeinn að hún hefði gengið frekar hægt.

„Þetta er náttúrlega fólk sem vinnur alla jafna á skrifstofunni og er því ekki vant svona vinnu. Maður er kannski mest hræddur um öryggið þar sem menn fá yfirleitt góða leiðsögn í að minnsta kosti tvo daga áður en þeir fara í þessi störf,“ segir Kolbeinn í samtali við Vísi.

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi ISAL, segir vikulegan farm áls sem vanalega fer úr Straumsvík vera um 4000 tonn en óljóst sé á þessari stundu hversu mikið ál fari í skipið. Það verði metið núna seinnipartinn. Ólafur segir útskipunina hafa gengið vel, Vinnueftirlitið hafi meðal annars komið á staðinn og ekki haft neinar athugasemdir við framkvæmdina.

„Okkar megináhersla er hins vegar á að klára þessa kjarasamninga enda finnst okkur kominn tími á það,“ segir Ólafur en ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til nýs fundar í kjaradeilunni.


Tengdar fréttir

Yfirmenn Ísal skipa út áli í dag

Upplýsingafulltrúi Ísal reiknar með að yfirmönnum muni takast að skipa út að minnsta kosti hluta þess áls sem á að fara til útlanda. Formaður Hlífar efast um getu yfirmannanna.

Langvarandi deilu er hvergi nærri lokið

Engu hefur enn miðað í kjaraviðræðum starfsmanna Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í apríl í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×