Innlent

Norður-Kóreumenn sjá tækifæri norðan Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar

Norður-Kórea hefur öllum að óvörum undirritað Svalbarðasáttmálann. Það opnar þessum mesta ógnvaldi suðaustur-Asíu möguleika á að koma sér upp aðstöðu á heimskautaeyjum norðan Íslands en talið er að Norður-Kóreumenn séu jafnframt með norðurslóðasiglingar í huga. 

Svalbarði er á milli Íslands og norðurpólsins en þótt hann heyri undir Noreg er staða eyjaklasans einstök að þjóðarétti vegna Svalbarðasáttmálans frá árinu 1920. Hann gefur þeim 42 þjóðum, sem undirritað hafa sáttmálann, færi á að nýta auðlindir Svalbarða til jafns við Norðmenn og koma sér þar upp aðstöðu, þó ekki í hernaðarskyni.

Frá Barentsburg, rússneska kolanámubænum á Svalbarða. Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.

Þetta hafa Rússar nýtt sér með rekstri kolanámu og ríki eins og Kína, Indland, Japan og Suður-Kórea stunda þar vísindarannsóknir. Þá hafa flestar þjóðir heims lagt inn fræ til varðveislu í sífrera í fjalli við höfuðstaðinn Longyearbyen, þeirra á meðal Norður-Kóreumenn, sem geyma þar fræ af 5.700 jurtum í alþjóðlegum fræbanka. 

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, þykir einhver mesti ógnvaldur við heimsfriðinn um þessar mundir. Um allan heim setur hroll að mönnum vegna nýlegra fregna um að Norður-Kóreumenn hafi sprengt vetnissprengju og ráði yfir eldflaugum sem geti borið slík gereyðingarvopn hvert á land sem er. 

Og nú hefur ríkisfréttastofa þeirra tilkynnt að Norður-Kórea hafi undirritað Svalbarðasáttmálann og var tekið fram að undirritunin gæfi ríkinu rétt til auðlindanýtingar og rannsókna á Svalbarða. Sagði að þar væru kolanámur, fiskimið og fleiri auðlindir sem gætu gagnast Norður-Kóreu.

Ræðismannsskrifstofa Sovétríkjanna á Svalbarða þótti grunsamlega stór á dögum kalda stríðsins. Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.

Ráðamenn í Noregi hafa ekkert tjáð sig en segjast vilja bíða formlegrar staðfestingar á undirrituninni frá stjórnvöldum í Frakklandi, sem varðveita sáttmálann. 

Það er mönnum hulin ráðgáta hvað Norður-Kóreumönnum raunverulega gengur til. Sérfræðingur í alþjóðamálum við Utanríkismálastofnun Noregs, Marc Lanteigne, hefur getið sér til um að þeir vilji ná fótfestu á norðurslóðum vegna siglinga um norðausturleiðina. Þessi tíðindi séu dæmi um vaxandi mikilvægi norðurslóða, í bæði efnahags- og hernaðarlegu tilliti. 

Hinn dýrkaði leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, ætti sjálfur að vera fullfær um að takast á við erfiðar aðstæður norðurhjarans, miðað við fréttir ríkisfjölmiðils landsins í fyrra af afreki hans, þegar hann kleif hæsta fjall landsins, við ákafan fögnuð hermanna sinna. Meðalárshiti á tindinum er sagt vera átta stiga frost.
 

Talið er að Norður-Kóreumenn hafi áhuga á siglingaleiðinni um Íshafið.

Tengdar fréttir

Tortryggja jarðakaup Nubos á Svalbarða

Ósk Kínverjans Huangs Nubo að kaupa hluta af Svalbarða vekur tortryggni í Noregi. Þar hafa bæði stjórnmálamenn og Kínasérfræðingar varað við sölunni.

Snædrekinn kominn til Reykjavíkur

Kínverska rannsóknarskipið og ísbrjóturinn Snædrekinn liggur nú við Ytrihöfn í Kollafirði. Það lagðist að bryggju um níu leytið í morgun.

Lenín vakir enn yfir Barentsburg á Svalbarða

Einn leyndardómsfyllsti bær á dögum kalda stríðsins var Barentsburg á Svalbarða en þar réðu Sovétmenn ríkjum. Vegna Svalbarðasáttmálans er staða eyjaklasans mjög sérstök að þjóðarétti og hafa ýmsar þjóðir nýtt sér það með eigin bækistöðvum. Byggðin er einkum á fjórum stöðum, Longyearbyen, Nýja-Álasundi, Sveagruva og Barentsburg en þann stað ætlum við að skoða nánar. Risastórar glæsimyndir á húsveggjum af vinnandi alþýðuhetjum minna þar á forna tíma. Þarna vakir Lenín yfir bænum, en kannski er það táknrænt að húsið fyrir aftan er orðið rammskakkt. Kolakraninn við höfnina minnir á athafnir en bæinn byggðu Sovétmenn í kringum kolanámur. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þetta er enginn draugabær. Hann er raunar sprelllifandi, trukkar eru á fleygiferð því kolavinnslan er enn í fullum gangi. Þarna búa nú um fjögurhundruð manns, einkum Rússar og Úkraínumenn. Þeir hafa sjúkrahús og íþróttahús, verslun, veitingahús og hótel en líka barna- og unglingaskóla því í bænum eru um fjörutíu börn. Á árum kalda stríðsins voru hér mest um eitt þúsund Rússar og Norðmenn telja nokkuð víst að þeir hafi nú ekki allir verið að vinna kol. Sovétmenn voru einnig á fleiri stöðum á eyjaklasanum. Svalbarði var nefnilega einn af heitu stöðunum í togstreitu NATO-ríkja og Sovétblokkarinnar. Gagnkvæm tortryggni ríkti um öll umsvif en samkvæmt Svalbarðasáttmálanum er hverskyns hernaðarbrölt þar bannað. Ræðismannsskrifstofa Sovétmanna í Barentsburg þótti hins vegar grunsamlega stór og þyrluflugvöllur á Herodda þótti búinn óvenju flóknum tækjum, ratsjám og loftnetum. En nú virðast allir vera orðnir vinir. Vestrænir ferðamenn flykkjast nú hingað á vélsleðum til að upplifa gamla sovéttímann og Rússarnir reyna að græða á öllu saman með því að selja þeim veitingar, gistingu, minjagripi og leiðsögn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.