Erlent

Stjarna úr Police Academy myndunum látin

Atli Ísleifsson skrifar
George Gaynes, hér fyrir miðju, fór með hlutverk Eric Lassard í Police Academy myndunum.
George Gaynes, hér fyrir miðju, fór með hlutverk Eric Lassard í Police Academy myndunum. Vísir/Getty
Bandaríski leikarinn og söngvarinn George Gaynes er látinn, 98 ára að aldri.

Gaynes kom fram í öllum sjö Police Academy myndunum, auk þess að leika eitt aðalhlutaverkanna í gamanþáttaröðinni Punky Brewster á níunda áratugnum.

Gaynes hét réttu nafni George Jongejans og fæddist í Helsinki í Finnlandi. Hann ólst upp í Frakklandi, Englandi og í Sviss.

Að síðari heimsstyrjöldinni lokinni fluttist hann til Bandaríkjanna þar sem hann gekk til liðs við óperu borgarinnar áður en hann tók að sér hlutverk í Broadway-sýningum.

Þó að hann hafi komið fram í kvikmyndum á borð við Tootsie og þáttunum Mission: Impossible, The Six Million Dollar Man og Hawaii Five-0 þá verður hans líklegast helst minnst fyrir hlutverk sitt sem Eric Lassard í Police Academy myndunum.

Í frétt BBC um málið segir að Gaynes hafi leikið í sinni síðustu kvikmynd árið 2003, Just Married með þeim Ashton Kutcher og Brittany Murphy í aðalhlutverkum.

Hann lætur eftir sig eiginkonu, Allyn Ann McLerie, eina dóttur og barnabörn. Sonur hans, Matthew fórst í bílslysi árið 1989.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×