Erlent

Fjölmargir látnir í hryðjuverkaárás í Jakarta

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla telur að fjórtán manns hið minnsta hafi tekið þátt í árásinni.
Lögregla telur að fjórtán manns hið minnsta hafi tekið þátt í árásinni. Vísir/AFP
Margar sprengjur hafa sprungið í Jakarta höfuðborg Indónesíu í nótt og skothvellir hafa einnig heyrst.

Að minnsta kosti sjö hafa fallið í árásunum sem meðal hafa verið gerðar í Sarinah verslunarmiðstöðinni, nálægt forsetahöll landsins, og við skrifstofur Sameinuðu þjóðanna. Fimm hinna látnu eru árásarmenn.

Guardian greinir frá því að fjórtán árásarmenn á vélhjólum, vopnaðir handsprengjum og skotvopnum, hafi staðið fyrir árásunum.

Sjónarvottar segir í samtali við AP að þrír menn hafi sprengt sjálfa sig í loft upp inni á Starbucks-stað og að tveir vopnaðir menn hafi ráðist inn á nálæga lögreglustöð. Einn lögreglumaður er sagður hafa fallið.

Joko Widodo, forseti Indónesíu, segir ljóst að um hryðjuverkaárás sé að ræða. Segir hann að lögregluyfirvöld hafi náð tökum á ástandinu, en að óljóst sé hvort fleiri árásarmenn séu á flótta. Hvatti hann íbúa höfuðborgarinnar að halda ró sinni.

Mörg hundruð lögreglumenn voru á götum borgarinnar og kom nokkrum sinnum til skotbardaga en þó er enn ekki vitað hverjir standa að baki árásunum.

Indónesía hefur þó verið á hæsta viðbúnaðarstigi um nokkurn tíma vegna hótana frá ISIS samtökunum um að gera árásir í landinu, en um tvö hundruð Indónesar eru taldir hafa farið til Sýrlands til að ganga í samtökin.

Al Jazeera greinir frá því að hollenskur starfsmaður Sameinuðu þjóðanna sé í hópi hinna látnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×