Innlent

Kollegar lögreglumannsins steinhissa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglumaðurinn er á fimmtugsaldri og reynslumikill innan fíkniefnadeildar.
Lögreglumaðurinn er á fimmtugsaldri og reynslumikill innan fíkniefnadeildar. Vísir/GVA
Reyndur fíkniefnalögreglumaður situr í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa brotið alvarlega af sér í starfi. Kollegar mannsins, bæði lögreglumenn og annað starfsfólk lögreglu, er margt hvert í áfalli vegna málsins og sömu sögu er að segja um þá lögreglumenn sem starfað hafa með honum í gegnum tíðina.

Tíðindin af varðhaldi hans hafa komið fólki gjörsamlega í opna skjöldu enda hann ekki þekktur af öðru en góðu og talinn stálheiðarlegur og faglegur að öllu leyti í sínu starfi. Hann hefur starfað hjá fíkniefnadeild í yfir áratug en er nú í einangrun á Litla-Hrauni.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri segir kollega lögreglumannsins í áfalli.Vísir/Ernir
Nánustu kollegum boðin áfallahjálp

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Vísi að starfsmenn séu í áfalli.

Hún segir að starfsmönnum á deildinni sem maðurinn starfar á verði boðin áfallahjálp. Um er að ræða fíkniefnadeild lögreglu.

Sigríður Björk segist þó ekki geta tjáð sig um málið sem slíkt enda sé það til rannsóknar hjá ríkissaksóknara.

Kim Kliver, yfirlögregluþjónn hjá dönsku lögreglunni, segir ámælisvert að lögreglumaðurinn hafi gegnt yfirmannsstöðu hjá fíkniefnadeild og upplýsingadeild.Skjáskot af vef tv2lorry.dk
Engin óháð rannsókn þrátt fyrir endurteknar athugasemdir

Lögreglumaðurinn er grunaður um alvarlegt brot í starfi sem snýr að óeðlilegum samskiptum við aðila sem hafa verið til rannsóknar hjá fíkniefnadeild lögreglu.

Hann er ekki eini lögreglumaðurinn sem sætt hefur ásökunum um brot í starfi því kollegi mannsins, sem gegndi bæði yfirmannsstöðu hjá fíkniefnadeild og upplýsingadeild á sama tíma, hefur endurtekið og yfir lengri tíma verið sakaður um leka á upplýsingum án þess að óháð rannsókn hafi farið fram á ásökununum.

Hann hefur hins vegar oftar en einu sinni verið færður til í starfi vegna ásakana og hafa tilfærslurnar vakið athygli kollega innan lögreglu. Margir hverjir telja þær óútskýranlegar.

Vísir hefur fjallað ítrekað um málið eins og sjá má í tengdum fréttum hér að neðan.

Uppfært klukkan 13:10

Fyrirsögn var breytt vegna málfars.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.