Erlent

Efast um fullyrðingar Norður-Kóreu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Norður-Kóreubúar fylgjast með tilkynningu ríkissjónvarpsins á stórum skjá í höfuðborginni Seúl.
Norður-Kóreubúar fylgjast með tilkynningu ríkissjónvarpsins á stórum skjá í höfuðborginni Seúl. vísir/epa
Sérfræðingar hafa sumir hverjir sagt ólíklegt að Norður-Kóreumenn hafi sprengt vetnissprengju í fyrrinótt, eins og þeir hafa stært sig af.

Fyrstu mælingar bendi til þess að Norður-Kóreumenn hafi gert tilraun með kjarnorkusprengju úr úrani eða plútoni. Vetnissprengja sé miklu öflugri og það hefði komið fram á jarðskjálftamælum.

Ríkissjónvarpið í Norður-Kóreu fullyrti í gærmorgun að árangursrík tilraun hefði verið gerð með að sprengja „litla vetnissprengju”. Þetta væri gert í sjálfsvarnarskyni vegna hættu, sem landinu var sagt stafa af Bandaríkjunum.

„Bandaríkin hafa safnað saman öflum sem eru andsnúin Norður-Kóreu og vakið máls á ærumeiðandi mannréttindamálum til að hindra framfarir í Norður-Kóreu,” sagði þulur norðurkóreska sjónvarpsins.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er sagður hafa fylgst grannt með sprengingunni, en hann verður 33 ára gamall á föstudaginn.

Norður-Kórea gerði tilraunir með kjarnorkusprengingar árin 2006, 2009 og 2013. Í kjölfarið voru samþykktar alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn landinu.

Búast má við því að samskiptin við umheiminn versni í kjölfar sprengingarinnar í fyrrinótt.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×