Fótbolti

Jóhann Berg: Áttum ekki skilið að tapa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland mátti sætta sig við 2-0 tap fyrir Króatíu í undankeppni HM 2018 í Zagreb í kvöld. Marcelo Brozovic skoraði bæði mörk Króata í leiknum.

Íslendingar fengu þó sín færi í leiknum, þeirra á meðal Jóhann Berg sem átti gott skot snemma leiks sem sveif rétt yfir króatíska markið.

„Ég er pirraður núna. Við vorum góðir í fyrri hálfleik og hefðum átt að skora. Líka í seinni hálfleik. Við fengum góð færi til að jafna þennan leik,“ sagði Jóhann Berg við Vísi eftir leikinn í kvöld.

„Ef eitthvað var vorum við betri en þeir. Við vorum frábærir í fyrri hálfleik en þeir fengu eitt skot fyrir utan teig þá og þeir kláruðu það. Það var einbeitingarleysi hjá okkur.“

Hann segir að Íslendingar hefðu getað sótt meira út á kantana enda meira pláss þar en á miðjunni þar sem Króatar eru með sína bestu leikmenn.

„Þetta var í raun leikur sem var eftir þeirra höfði. Þeir voru með forystuna og við vorum ekki nógu klókir að svara þeim.“

Hann segir að vallaraðstæður hafi engu breytt í kvöld. „Þetta var jafnt fyrir bæði lið. Við vorum bara ekki nógu góðir í seinni hálfleik og því fór sem fór. Það þýðir ekkert að læra yfir því. Við fengum fína möguleika en þetta datt bara ekki okkar megin. En svona er fótboltinn.“

„Þetta er þó enginn heimsendir. Við töpuðum fyrir sterku liði á útivelli. Við vinnum þá bara heima og þá verðum við í fínum málum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×