Innlent

Skárra að gefa fuglunum gott korn heldur en brauð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fuglafræðingur mælir með því fólk gefi fuglum eins og álftum fremur gott korn heldur en brauð og sleppi alveg brauðgjöfum yfir sumartímann. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í viðtali við Ólaf Einarsson fuglafræðing. 

Við sögðum í fyrradag frá álftafjölskyldunnni á Árbæjarlóni en þar má nú sjá sex álftarunga synda um með foreldrum sínum. Eins og svo margir aðrir gera, þá gaukuðum við að þeim brauðmolum til að lokka fuglana nær. Fuglafræðingurinn er þó ekki hrifinn af brauðgjöfum.

„Nei, svona ekki sérstaklega að sumarlagi,” segir Ólafur og rifjar upp að sérstakt átak hafi verið gert á Reykjavíkurtjörn til að draga úr brauðgjöfum yfir sumarmánuði.

„Það dregur að máva og mávurinn liggur oft í ungum. Það kemur fyrir að þeir taki unga. Þannig að það er ágætt að vera ekkert að gefa fuglum brauð yfir sumartímann.”

Hann vill fremur að fuglarnir fái eitthvað hollara.

„Það væri miklu betra að gefa þeim bara almennilegt korn heldur en brauð. Það er svona náttúrulegra, ef út í það er farið.”

Hann kvaðst þekkja það úr friðlöndum á Bretlandseyjum að þar væri hægt að kaupa korn fyrir fugla í friðlöndum, það væri einskonar heilsufæði.

Hann fræddi okkur einnig um að sennilega væri það kvenfuglinn sem réði hreiðursstæðinu því hann leitaði gjarnan á æskustöðvar. Nánar í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan.

Álftin á Árbæjarlóni er með sex unga.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.