Innlent

Bandarískur ferðamaður sem ætlaði á Laugaveg í Reykjavík endaði á Laugarvegi á Siglufirði

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Siglufirði, þar sem bandaríski ferðamaðurinn dvelur núna.
Frá Siglufirði, þar sem bandaríski ferðamaðurinn dvelur núna. Vísir/Pjetur
Bandarískur ferðamaður sem ætlaði á Hótel Frón á Laugavegi í Reykjavík eftir að hafa lent á Keflavíkurflugvelli í dag endaði á Laugarvegi á Siglufirði vegna misskilnings við notkun á GPS-tæki.

Umræddur ferðamaður á bókað herbergi á Hótel Frón og ætlaði sér þangað eftir fimm tíma flug frá Bandaríkjunum. Um klukkutíma tekur að ferðast frá Keflavíkurflugvelli á Hótel Frón en tæpum fimm tímum eftir að hafa lagt af stað bankaði ferðamaðurinn upp á hjá Sigurlínu Káradóttur sem býr á Laugarvegi á Siglufirði og spurði hvort Hótel Frón væri í grenndinni.

Hótel Frón, við Laugaveg í Reykjavík. Vísir/Stefán
„Hann bankaði og spurði hvort hann væri á réttu heimilisfang og ég náttúrlega horfði á miðann, horfði svo á hann og hélt að þetta væri djók,“ segir Sigurlína við Vísi um málið. Hún segir Bandaríkjamanninn hafa orðið fremur vandræðalegan þegar hún útskýrði fyrir honum mistökin.

„Þú ert á Laugarvegi, en samt á Siglufirði en ekki Reykjavík,“ sagði Sigurlína við Bandaríkjamanninn. Hún segir hann hafa spurt sig hvort Hótel Frón væri langt frá Siglufirði.

„Hann vissi ekki alveg hvernig hann átti að vera. Þannig að ég bauð honum bara inn og bauðst til að hringja á hótelið fyrir hann og útskýra fyrir honum að hann kæmi ekki á Hótel Frón í dag. Hann fékk bókuninni breytt þannig að hann fer þangað seinna í vikunni,“ segir Sigurlína. Því næst kom hún honum fyrir á Sigló Hótel á Siglufirði þar sem var vel tekið á móti honum.

Hún segir hann hafa tjáð sér að hann hefði sett heimilisfang Hótels Frón í GPS-tækið og keyrt eftir því. Hann var farinn að gruna að ekki væri allt með felldu eftir að hafa keyrt í þó nokkurn tíma. Hann sló heimilisfangið tvívegis upp á nýtt í tækið en alltaf beindi það honum í átt til Siglufjarðar.

Hún sagði hann hafa ætlað sér að ferðast um Ísland, en alls ekki á fyrsta degi eftir fimm tíma flug frá New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×