Gunnar skipaði í stjórnina ellefu dögum áður en hann lætur af embætti ráðherra. Deginum áður en Gunnar Bragi tók við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu dældi hann út skúffufé utanríkisráðuneytisins í styrki.
Sunna, sem er mágkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur starfað sem aðstoðarmaður Gunnars Braga í rúm þrjú ár. Viggó hefur setið í sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir hönd Framsóknarflokksins síðan árið 2010 en hann er einnig varamaður stjórnar Kaupfélags Skagafjarðar.
Þremur stjórnarmönnum var vikið úr stjórn kvöldið fyrir aðalfundinn en einn hætti af sjálfsdáðum. Hringt var í þau þar sem þeim var tilkynnt að þjónustu þeirra hjá Matís væri ekki óskað lengur.
Rekstur Matís, sem er vísinda- og nýsköpunarfélag, hefur gengið vel og mikil kjölfesta verið hjá stjórninni, en fyrir aðalfundinn höfðu fjórir stjórnarmeðlimir starfað í stjórninni frá stofnun félagsins árið 2007.

Samkvæmt heimildum fréttablaðsins höfðu þeir þrír stjórnarmenn sem vikið var úr starfi, Arnar Bjarnason hagfræðingur, Friðrik Friðriksson, hagfræðingur og fyrrverandi formaður Matís, og Bergþóra Þorkelsdóttir, dýralæknir og forstjóri ÍSAM, haft hug á því að starfa áfram fyrir félagið. Arnar hafði starfað hjá Matís í eitt ár en Bergþóra, sem skipuð var í stjórn Matís af Sigurði Inga Jóhannessyni forsætisráðherra, í rúm tvö ár.
Ásamt Sunnu og Viggó tóku Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, og Bergþór Ólason, fyrrverandi aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, við störfum hjá Matís í fyrradag.
Ekki náðist í Gunnar Braga Sveinsson við gerð fréttarinnar þar sem hann var á kosningaferðalagi um Skagafjörð.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu