Enski boltinn

Gerrard gaf lítið fyrir lófaklapp stuðningsmanna Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard gengur hér af velli við mikið lófaklapp.
Steven Gerrard gengur hér af velli við mikið lófaklapp. Vísir/Getty
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, skoraði jöfnunarmark liðsins á móti Englandsmeisturum Chelsea í gær en það var ekki nóg og liðið á nú ekki lengur raunhæfa möguleika á því að ná fjórða og síðasta sætinu inn í Meistaradeildina.

Eftir leikinn var Steven Gerrard spurður út í þá stund þegar stuðningsmenn Chelsea klöppuðu vel fyrir honum þegar hann fór af velli í sínum síðasta leik á Stamford Bridge.

Flestir stuðningsmenn Chelsea klöppuðu fyrir honum eftir að Jose Mourinho stóð sjálfur upp og klappaði fyrir leikmanninum sem hann reyndi svo oft að ná í. Gerrard gaf hinsvegar lítið fyrir klappið frá stuðningsmönnum Chelsea.

„Ég var ánægðari með lófatakið frá stuðningsmönnum Liverpool. Stuðningsmenn Chelsea sýndu mér virðingu í nokkrar sekúndur í dag en þeir höfðu látið mig heyra það allan leikinn," sagði Steven Gerrard við BBC.

„Ég ætla ekki að láta plata mig út í það að tala eitthvað vel um stuðningsmenn Chelsea. Það var gaman að þeir létu sjá sig einu sinni," skaut Gerrard.

„Þetta var samt almennilegt af þeim. Ég veit að þeir hafa hraunað yfir í mörg ár af því að ég vildi ekki koma til félagsins. Ég hef fengið góðan stuðning frá stuðningsmönnum Liverpool og það er það sem skiptir mig máli," sagði," skaut Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×