Byggðasafnið í Glaumbæ er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Skagafjarðar. Þegar við stöldruðum við stóðu sex rútur á bílastæðinu auk fjölda einkabíla. Allir vilja skoða gamla torfbæinn en þegar mörghundruð manns eru á staðnum á sama tíma fer að verða flókið fyrir alla að komast inn.

Eins og annars staðar á landinu hefur gestafjöldinn snaraukist, einkum síðustu tvö árin. Þetta segir Sigríður farið að verða áhyggjuefni. Brugðist hafi verið við í sumar með því að setja gangstéttir í kringum torfbæinn.
„Þannig að fólk geti gengið á gangstéttunum en ekki að troða niður grasið því það var alveg komið niður í svað í fyrra.“
Þurft hefur að setja upp skilti þar sem ferðamenn eru vinsamlegast beðnir um að ganga ekki á torfþökunum og nú velta menn því fyrir sér hvort setja þurfi takmarkanir á þann fjölda gesta sem getur verið inni í torfbænum hverju sinni.
„Það blasir við, - á þessum tíma. Hópatakmarkanir,“ segir Sigríður.
Hún vill þó ekki gera of mikið úr vandanum og flestir gangi vel um þessar fornminjar.
„Þetta eru dásamlegir gestir yfirleitt. Það er einn og einn sem mætti hugsa sig betur um áður en hann gerir ákveðna ranga hluti. En það eru mjög fáir sem eru til vandræða miðað við allan fjöldann. Bara yfirleitt frábærir gestir.“