Erlent

Trump nýtur mests fylgis repúblikana

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump nýtur mikils fylgis þrátt fyrir skiptar skoðanir landsmanna á honum.
Donald Trump nýtur mikils fylgis þrátt fyrir skiptar skoðanir landsmanna á honum. nordicphotos/afp
Auðkýfingurinn Donald Trump er með mest fylgi þeirra sem sækjast eftir útnefningu flokks repúblikana til forsetaframboðs í Bandaríkjunum samkvæmt nýrri könnun The Economist og YouGov. Trump nýtur stuðnings um fimmtán prósenta þeirra sem hyggjast kjósa í forsetakosningunum. Á hæla honum koma Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, og Rand Paul, öldungadeildarþingmaður frá Kentucky, með ellefu prósent hvor.

Jeb Bush þykir hins vegar líklegasti sigurvegarinn. 29 prósent telja hann sigurstranglegastan. Einungis sjö prósent telja Trump sigurstranglegastan, innan við helmingur hugsanlegra kjósenda hans.

Fylgi Trumps kemur í kjölfar harðra ummæla hans um ólöglega innflytjendur en hann sagði í ræðu þar sem hann tilkynnti um framboð sitt að margir þeirra Mexíkóa sem flyttu ólöglega til Bandaríkjanna væru glæpamenn og kynferðisbrotamenn.

Trump sagði í viðtali við CNN í gær að ef hann yrði forseti myndi hann varpa sprengjum á olíusvæði undir stjórn Íslamska ríkisins í Írak. Rick Francona, fyrrverandi hershöfðingi í Bandaríkjaher, sagði áform Trumps skaðleg fyrir Írak til lengri tíma. Í framtíðinni, eftir að Íslamska ríkinu hefði verið bolað burt, myndu olíusvæðin vera nauðsynleg fyrir uppbyggingu Íraks.

Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, leiðir listann hjá demókrötum. Hún nýtur stuðnings 55 prósenta hugsanlegra kjósenda. Fylgi hennar hefur þó dalað á síðustu vikum þar sem Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður frá Vermont, hefur klifrað upp í 24 prósenta fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×