Innlent

Húsnæðisfrumvörp afgreidd fyrir áramót

Ingvar Haraldsson skrifar
Eygló Harðardóttir vonast til að áætlanir ríkisstjórnarinnar í byggingu félagslegra íbúða standist.
Eygló Harðardóttir vonast til að áætlanir ríkisstjórnarinnar í byggingu félagslegra íbúða standist. vísir/gva
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, lýsir vonbrigðum með að ekki hafi tekist að ljúka afgreiðslu frumvarpa um húsnæðismál á nýliðnu þingi. „Ég hefði auðvitað kosið, líkt og allir ráðherrar og þingmenn, að sjá meiri skilvirkni í afgreiðslu mála á nýloknu þingi,“ segir Eygló.

Til að liðka fyrir kjarasamningum á almennum vinnumarkaði kynnti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun sem m.a. fólst í að byggja 2.300 félagslegar íbúðir á árunum 2016-2019. Samkvæmt samkomulaginu þarf að byggja á milli 500-600 félagslegar íbúðir á næsta ári.

„Vonandi verða sem flestar íbúðir byggðar í nýju félagslegu kerfi innan rammans,“ segir hún.

Þá segir Eygló að til standi að leggja fram frumvarp um stofnframlög til byggingar félagslegra íbúða á haustþingi og afgreiða fyrir áramót líkt og önnur frumvörp um húsnæðismál.

Félagsmálaráðherra segir að frumvarp um húsnæðisbætur, sem lagt var fram á vorþingi, sé nú í umsagnarferli hjá velferðarnefnd Alþingis. „Þegar ábendingar velferðarnefndar liggja fyrir um frumvarpið mun samráðshópurinn fara yfir þær athugasemdir og skoða hvort og þá hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera áður en það verður lagt aftur fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×