Lífið

Hafa safnað tæpum 9 milljónum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, er ánægður með að geta tekið þátt í að styðja við hjálparstarf Rauða krossins á svæðinu.
Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, er ánægður með að geta tekið þátt í að styðja við hjálparstarf Rauða krossins á svæðinu. vísir/stefán
Spilarar EVE Online tölvuleiks CCP hafa safnað 68.340 Bandaríkjadollurum, eða rúmlega 8,9 milljónum íslenskra króna, í neyðaraðstoð fyrir fórnarlömb jarðskjálftans í Nepal frá því söfnun meðal þeirra hófst um síðustu mánaðamót.

Söfnunin fer alfarið fram í leiknum sjálfum og lýkur á miðnætti þann 24. maí. Söfnunarféð rennur óskipt til Rauða krossins á Íslandi, sem nú stendur fyrir víðtækri söfnun fyrir hjálparstarfi í Nepal.

„Við höfum fylgst með eyðileggingunni og hörmungunum sem dunið hafa yfir Nepal í kjölfar jarðskjálftanna, og bæði við og spilarar EVE Online vildum reyna gera eitthvað til að hjálpa. Við erum auðvitað afskaplega ánægð með að geta tekið þátt í að styðja við gríðarlega mikilvægt hjálparstarf Rauða krossins á svæðinu,“ segir Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP.

Söfnunin fer þannig fram að spilarar EVE Online geta látið fé af hendi rakna til hjálparstafsins í Nepal með gjaldmiðlinum PLEX (Pilot Licence Extension), sem er annar af tveim gjaldmiðlum EVE heimsins sem spilarar leiksins nota. Raunvirði hvers PLEX er um 15 Bandaríkjadollarar og sér CCP um að koma því fé sem spilarar leiksins safna yfir í Bandaríkjadollara og síðan til Rauða krossins á Íslandi, sem stendur fyrir neyðaraðstoð í Nepal og styður alþjóðlegt hjálparstarf á svæðinu.

Þetta er í sjötta sinn sem CCP, í samstarfi við spilara EVE Online, ýtir úr vör söfnunarátaki til mannúðarmála undir slagorðinu PLEX for Good.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×