Innlent

Frestur til að samþykkja skuldaleiðréttingu gildir ekki um óbirtar lækkanir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson verkefnastjóri höfuðstólslækkunarinnar
Tryggvi Þór Herbertsson verkefnastjóri höfuðstólslækkunarinnar
„Fresturinn til þess að samþykkja lækkunina gildir ekki um þá aðila sem ekki hafa fengið hana birta og þeir missa því ekki rétt sinn eftir að hann rennur út,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri höfuðstólslækkunarinnar, aðspurður um áhrif frestsins á þá aðila sem ekki hafa fengið birta lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána.

Aðilar verða að samþykkja lækkun höfuðstóls íbúðalána vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar til þess að njóta réttarins.

Fjögur þúsund manns hafa enn ekki fengið birta lækkunina en frestur til þess að samþykkja skuldaleiðréttinguna rennur út þann 23. mars næstkomandi.

„Þessu verður háttað þannig að um leið og leiðréttingin verður birt fyrir viðkomandi hefur hann þrjá mánuði til þess að samþykkja.“

Af þeim fjögur þúsund manns sem ekki hafa fengið birta lækkunina er stór hluti dánarbú og segir Tryggi það auka flækjustigið. Þó séu einhverjir einstaklingar ekki búnir að fá hana birta og sé reynt eftir fremsta megni að senda þeim upplýsingar og kynna þeim að hún sé á leiðinni. 

Rúmlega 90 prósent þeirra sem hafa fengið birta lækkunina hafa nú þegar samþykkt hana.

Starfsmenn ríkisskattstjóra hafa á síðustu misserum unnið í því að hringja í þá sem eiga eftir að samþykkja til þess að minna fólk á að fresturinn sé að renna út. „Það lítur út fyrir að það náist að hringja í alla þá sem eiga eftir að samþykkja,“ segir Tryggvi Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×