Erlent

Merkel vísar skaðabótakröfunum á bug

Janis Varúfakis og Alexis Tsipras Fjármálaráðherra og forsætisráðherra nýju grísku vinstristjórnarinnar.
Janis Varúfakis og Alexis Tsipras Fjármálaráðherra og forsætisráðherra nýju grísku vinstristjórnarinnar. fréttablaðið/EPA
Þýska stjórnin hafnar alfarið kröfum grískra stjórnvalda um skaðabætur vegna framferðis Þjóðverja í Grikklandi á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, segir málið löngu afgreitt, bæði lagalega og pólitískt. Reuters-fréttastofan skýrði frá þessu.

Seibert segir engar viðræður í gangi við Grikki, hvorki af hálfu Merkel kanslara né Wolfgangs Schäuble fjármálaráðherra.

Þá hefur Reuters eftir talsmanni þýska fjármálaráðuneytisins að kröfur Grikkja séu einungis tilraun til að beina athyglinni frá hinum alvarlega fjárhagsvanda Grikkja.

Þýskir nasistar hertóku Grikkland og drápu þar tugi þúsunda manna á árunum 1941 til 1944. Þá eyðilögðu nasistar hundruð þorpa í Grikklandi og hirtu fé úr gríska ríkissjóðnum.

Þjóðverjar segja allar kröfur um frekari stríðsskaðabætur vera úr sögunni eftir að bæði Austur- og Vestur-Þýskaland gerðu samning við hernámsveldin fjögur, Bretland, Frakkland, Rússland og Bandaríkin, árið 1990, stuttu fyrir endursameiningu þýsku ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×