Innlent

Niðurstaða um mánaðamótin

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Persónuvernd athugar samskipti þáverandi lögreglustjóra og aðstoðarmanns ráðherra í aðdraganda lekamálsins.
Persónuvernd athugar samskipti þáverandi lögreglustjóra og aðstoðarmanns ráðherra í aðdraganda lekamálsins. Fréttablaðið/Stefán
Persónuvernd mun ekki skila af sér niðurstöðu um athugun á samskiptum Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, í aðdraganda lekamálsins svokallaða.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er athugunin á lokastigi en niðurstaða mun ekki liggja fyrir fyrr en stjórn Persónuverndar hefur afgreitt hana af stjórnarfundi. Þeir eru haldnir mánaðarlega um mánaðamót.

Persónuvernd fór fram á að Sigríður skýrði hvernig gagnaöryggi var tryggt þegar hún sendi Gísla greinargerð um hælisleitandann Tony Omos sem síðan rataði í fjölmiðla. Hún hefur þegar sent Persónuvernd skýringar sínar. Gísli hefur einnig sent sínar skýringar til Persónuverndar.

Það var í nóvember árið 2013 sem Sigríður Björk sendi Gísla greinargerðina í tölvupósti. Persónuvernd ákvað að hefja athugun á málinu og fór fram á afhendingu allra gagna sem því tengdust.

Ganga á úr skugga um að sending Sigríðar brjóti ekki í bága við lög.

Í þeim gagnapakka sem Sigríður afhenti Persónuvernd var greinargerðin meðal gagna, en ekki tölvupósturinn. Stofnunin óskaði eftir að pósturinn yrði afhentur sem Sigríður sagðist í yfirlýsingu ætla að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×