Innlent

Efast um vilja Bjarna Ben til kaupa á skattaskjölum

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. vísir/stefán/gva
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi efast um vilja Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, til þess að kaupa gögn um skattaundanskot.

Bjarni hefur látið hafa eftir sér að ekki strandi á ráðuneyti hans að kaupa gögn úr erlendum skattaskjólum sem gætu fært sönnur á skattaundanskot Íslendinga. Boltinn sé alfarið hjá skattrannsóknarstjóra sem dregið hefur lappirnar í þessu máli, að hans sögn.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því þann 14. apríl 2014 að Íslendingum stæðu til boða kaup á gögnum um skattaundanskot Íslendinga. Í september sendi skattrannsóknarstjóri greinargerð til fjármálaráðuneytisins. Hún var til skoðunar í ráðuneytinu en enn hefur engin niðurstaða fengist um kaup gagnanna.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er ósammála ráðherranum og telur hann ekki vera að ýta málinu áfram. „Síðustu viðbrögð hans benda til þess að hann sé stöðugt að leita að undankomuleið í þessu máli. Málið er hans að leysa, hvort sem það strandar á löggjöf eða fjárveitingum.“

„Ég tel ólíklegt að ráðherra vilji kaupa umrædd gögn,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, og bendir á að ekkert stöðvi ráðherra í að kaupa skjölin. „Svo virðist sem íslenska frændhyglin sé að þvælast fyrir fjármálaráðherra. Hann dregur þjóð sína á asnaeyrunum.“

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, undrast orð fjármálaráðherra. „Hver svo sem vilji ráðherrans er í þessu máli þá hjálpar það ekki málinu að senda skattrannsóknarstjóra tóninn í fjölmiðlum heldur leysir hann málið með öðrum leiðum, sé það hans vilji.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×