Innlent

Náttúran megi ekki liggja undir skemmdum

fanney birna jónsdóttir skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir ferðamálaráðherra segir ekki hægt að horfa upp á náttúruna liggja undir skemmdum.
Ragnheiður Elín Árnadóttir ferðamálaráðherra segir ekki hægt að horfa upp á náttúruna liggja undir skemmdum. Fréttablaðið/Valli
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem jafnframt er ráðherra ferðamála, mælti fyrir frumvarpi um náttúrupassa á Alþingi í gær.

Útfærsla Ragnheiðar á gjaldtökunni hefur verið afar umdeild og voru skoðanaskiptin í umræðum um frumvarpið snörp. Ragnheiður sagði ekki hægt að horfa upp á náttúruna liggja undir skemmdum og sagðist sannfærð um að það væri meira í þessu máli sem sameinaði þingheim en sundraði. Ragnheiður benti sérstaklega á í ræðu sinni að gjaldtökuheimildir væru til staðar í náttúruverndarlögum. Hún sagði það vera vegna þess að löggjafinn sjái að með tilliti til náttúruverndar sé möguleiki á að það þurfi að innheimta aðgangseyri til að tryggja fjármuni til uppbyggingar.

Allir stjórnarandstöðuþingmenn sem stigu í pontu voru á móti útfærslu frumvarpsins. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, taldi að með því væri verið að flækja skattkerfið og vildi heldur að gistináttagjaldi yrði breytt, líkt og Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt til.

Kristján L. Möller, flokksbróðir Helga, sagði passann verstu leið sem ráðherra hefði getað valið. Hann furðaði sig einnig á því að frumvarpið væri lagt fram af ráðherra með skilaboðum um að hún vonaðist til að því yrði gjörbreytt af þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×