Innlent

Samið um móttöku og aðstoð fyrir flóttafólk

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Eygló Harðardóttir og Dagur B. Eggertsson undirrita samninginn.
Eygló Harðardóttir og Dagur B. Eggertsson undirrita samninginn. mynd/velferðarráðuneytið
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, undirrituðu í gær samning um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks sem koma til landsins í boði ríkisstjórnarinnar.

Hóparnir sem um ræðir eru tveir. Annars vegar fimm hinsegin einstaklingar, sem flestir komu fyrir áramót, auk þrettán Sýrlendinga sem væntanlegir eru á næstu vikum. Alls er um að ræða átján manns.

Við undirritunina sagði ráðherra að hún fagnaði samstarfinu við Reykjavíkurborg. Ekki síst þar sem nú væri tekið á móti fólki sem sætt hefði ofsóknum og ofbeldi sökum kynhneigðar sinnar.

Samningurinn fjallar um öll helstu verkefni sem móttaka flóttafólks hefur í för með sér.

Verkefnin varða einkum félagslega þjónustu en einnig heilbrigðisþjónustu og grunnskólamenntun sem íbúar sveitarfélaga njóta almennt. Rauði krossinn gegnir einnig hlutverki í móttöku og aðlögun fólksins og hefur samningur þess efnis verið undirritaður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.