Lífið

Frægasta ljósmóðir Bandaríkjanna til Íslands

Soffía Bæringsdóttir doula
Soffía Bæringsdóttir doula Vísir
Hingað er væntanleg Ina May Gaskin, frægasta ljósmóðir Bandaríkjanna. „Hún hefur starfað sem ljósmóðir í fjörutíu ár og er mikil baráttukona fyrir náttúrulegum og ótrufluðum fæðingum,“ segir Soffía Bæringsdóttir doula sem stendur fyrir komu hennar til landsins.

Að auki hefur Gaskin skrifað fjórar metsölubækur um „Spiritual midwifery“. „Það er of oft gripið inn í eðlilega fæðingu. Konur eru aldar upp í ótta við fæðingar, en fái þær rétta ljósmæðraleidda umönnun og fá að stjórna henni sjálfar þá er mun líklegra að þær upplifi góða fæðingu,“ segir Soffía og bætir við að Gaskin telji fæðinguna vanmetið mannréttindamál og mikilvægt sé að virða rétt kvenna í henni.

Soffía segir Ísland nokkuð framarlega í þessum málum, en við megum ekki missa niður þráðinn. „Við stöndum á smá veltikúlu. Það er búið að loka fæðingarstöðum, gangsetningartíðni er há og það er bara val um heima- eða sjúkrahúsfæðingu. Margar konur gætu hugsað sér að vera þarna á milli. Með því að stýra fæðingunni of mikið þá erum við að útrýma þessari eðlilegu fæðingu,“ segir Soffía.

„Við stöndum vel, en þurfum samt að koma á fót vitundarvakningu meðal kvenna,“ segir Soffía. Fyrirlesturinn er opinn öllum og verður haldinn 6. febrúar á Hótel Sögu klukkan níu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.