Lífið

Vildu ekki að Silvía Nótt væri fyrirmynd barna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Við urðum bara að senda svolítið skýr skilaboð því fólki fannst allt í lagi að Silvía væri börnum þeirra fyrirmynd. En það var bara alls ekki ásetningur okkar,“ sagði Ágústa Eva Erlendsdóttir söng- og leikkona í þættinum Eurovísi.

Ágústa Eva sagði karakterinn Silvíu Nótt hafa þróast á annan veg en áætlað var. Ekki hafi verið gert ráð fyrir að hún yrði svo vinsæl hjá yngri kynslóðinni. Þá hafi allt breyst og því hún og Gaukur Úlfasson, skaparar Silvíu Nætur, þurft að grípa til ráðstafanna. „Við reyndum að gera í því að gera hana að enn meiri norn,“ sagði Gaukur í þættinum.

Sjá einnig: Snýr baki við Silvíu nótt: „Dropinn sem fyllti mælinn“

Gervi-Silvía í Esso vorið 2006. Ólafía Hrönn og Ingvar E. Sigurðsson mættu í stað Silvíu og urðu aðdáendur fyrir vonbrigðum.Vísir/Anton Brink
Eitt af því sem vakti hvað mesta athygli var þegar þau sögðust ætla að árita geisladiska á bensínstöðinni Essó á Ártúnshöfða. Í stað þess að mæta sjálf sendu þau leikarana Ólafíu Hrönn Jónsdóttur og Ingvar E. Sigurðsson í gervi Silvíu Nætur og kærasta hennar Romarios. Þá höfðu þau látið bíða eftir sér í rúman klukkutíma. Viðstaddir urðu svo reiðir að bensínstöðin neyddist til að endurgreiða geisladiskana.

„Þetta var hrikalegt sko. Við urðum að senda skýr skilaboð um að þetta væri ekki barnaefni, hvað þá einhvers konar fyrirmynd. Silvía var eiginlega bara samansafn af samfélagslegum meinum í samfélaginu okkar á þessum tíma. Hún var bara samnefnari yfir allt sem er slæmt,“ sagði Ágústa.

Hlusta má á viðtalið við Ágústu Evu og Gauk í spilaranum hér fyrir ofan. Í þættinum segja þau meðal annars frá því að fyrirkomulagi Eurovision hafi verið breytt vegna framkomu Silvíu Nætur í keppninni. Þá ræða þau það þegar lagi þeirra var lekið áður en það var kynnt fyrir landsmönnum árið 2006 og segjast fullviss um að Ísland vinni Eurovision í ár.

Eurovísir er nýtt vikulegt hlaðvarp á Vísi þar sem hitað verður upp fyrir Eurovision sem fram fer í Vínarborg í maí. Umsjónarmenn þáttarins eru Aðalsteinn Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir.


Tengdar fréttir

Snýr baki við Silvíu Nótt

"Dropinn sem fyllti mælinn var fjarvera Silvíu Nætur á bensínstöð Esso við Ártúnshöfða nú á dögunum, þar sem aðdáendur hennar voru samankomnir í þeim tilgangi að fá nýja geisladiskinn hennar áritaðan. Þarna var fjöldi manns samankominn, en sorglegast var að sjá yngstu kynslóðina standandi þarna eins og strandaglópar með tárin í augunum og reiðar mæður að róa þau."

Má ekki blóta á sviðinu

Silvía Nótt heldur ásamt föruneyti til Grikklands í dag. Söngkonunni hefur verið tilkynnt að hún megi ekki blóta á sviðinu í Aþenu. Verði textanum ekki breytt frá því sem er í myndbandinu gæti farið svo að henni verði vikið úr keppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×