Erlent

Hælisleitendum falin ritstjórn á dönsku dagblaði í einn dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Gengið til stuðnings hælisleitendum í Kaupmannahöfn fyrr í vikunni.
Gengið til stuðnings hælisleitendum í Kaupmannahöfn fyrr í vikunni. Vísir/EPA
Danska dagblaðið Information kom út í morgun undir stjórn flóttamanna frá Mið-Austurlöndum sem leitað hafa hælis í Danmörku. Ákveðið var að fela hælisleitendum, sem starfað höfðu sem blaðamenn í heimalöndum sínum, ritstjórn blaðsins í einn dag til að sýna almenningi í Danmörku nýja hlið á þeim hópi fólks sem streymir nú inn í landið.

„Stjórnmálamenn líta á hælisleitendur sem vandamál sem þarf að leysa sem allra fyrst og flestir vilja gera það án þess að horfast í augu við fólkið sem um ræðir,“ segir í leiðara Dagbladet Information í dag. „Í dag eru það hælisleitendurnir sem tala til okkar.“

Tólf hælisleitendur, sem flestir eru nýkomnir til Danmerkur, fengu að taka alfarið við stjórntaumunum en fengu aðstoð við heimildarvinnu og þýðingar. Forsíðufréttin dró fram þá staðreynd að tveir þriðju þeirra flóttamanna sem streyma til Evrópu um þessar mundir eru karlmenn og fjallaði um þau áhrif sem það hefur á konurnar sem verða eftir í stríðshrjáðum löndum.

Sumir þeirra sem unnu að blaði dagsins í dag höfðu þurft að gjalda dýrum dómi fyrir það að stunda blaðamennsku í heimalandi sínu. Til að mynda var sonur einnar afganskrar blaðakonu myrtur til að hefna fyrir skrif hennar.

Dagbladet Information er frjálslynt dagblað sem hóf göngu sína sem málgagn hinnar ólöglegu mótspyrnuhreyfingar gegn nasistastjórn landsins í seinni heimsstyrjöldinni. Lotte Folke Kaarsholm, einn fréttastjóra blaðsins, segir í samtali við breska blaðið The Guardian að blaðið leitist ávallt við að berjast fyrir breytingum í þjóðfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×