Loft var lævi blandið í þinginu og mikill hiti í fólki. Ekki bætti úr skák að framan af fundi voru allir ofnar á blússandi hita og gluggar lokaðir, þar sem vetrarstillingin var enn í gangi. Með tiltölulega auðveldum aðgerðum tókst að kæla hið raunverulega andrúmsloft, en pólitíska andrúmsloftið var enn á suðupunkti þegar þingfundi lauk um sexleytið í gær.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti að sitja fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnum, en boðaði forföll. Aðrir ráðherrar þurftu því að svara fyrir stefnuna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra dró enga dul á hve ánægður hann væri með bréf Gunnars Braga. Hann minnti á að í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefði aðeins verið talað um að hugsanlega kæmi fram þingsályktunartillaga um ESB. Mikil samskipti hefðu verið við sambandið um málið og út úr þeim hefði komið „niðurstaða sem er auðvitað, þegar öllu er á botninn hvolft, hin augljósa besta niðurstaða í málinu, þ.e. að ljúka þessu á sem jákvæðastan hátt gagnvart Evrópusambandinu, ef svo má segja, gera þetta í góðu.“
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var hins vegar harðorður í garð Sigmundar Davíðs, sakaði hann raunar um að rjúfa drengskaparheit sitt.
„Hann er orðinn ber að því að ganga á svig við það heit sem hann hefur undirritað, drengskaparheit að stjórnarskránni, sem felur í sér að hæstvirtur forsætisráðherra þarf að virða þingræðisregluna og á ekki í samskiptum við önnur ríki að búa til leiðir til að halda ákvörðunum frá Alþingi Íslendinga.“
Sérstök umræða fór fram í gær um stöðu Alþingis og yfirlýsingu forseta. Í dag er munnleg skýrsla utanríkisráðherra á dagskrá þingsins.

Töluverður tími fór í umræður um fundarstjórn forseta og Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, var skammaður fyrir að hafa ekki haldið þingfund á föstudag þótt yfir þriðjungur þingmanna hefði krafist þess. Einar bar af sér sakir og vísaði meðal annars til efnis bréfsins umrædda.
„Því taldi forseti það einfaldlega betra fyrir þá umræðu sem kallað var eftir að hún færi fram síðar þegar fyrir lægi með skýrari hætti um inntak bréfsins.“