„Þetta er bara alltaf jafnljúft,“ segir Jónas Vilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, aðspurður um hvernig tónlistarhátíðin Eistnaflug gekk en hátíðin fór fram á Neskaupsstað um helgina.
Hann segir engin ofbeldisbrot eða kynferðisbrot hafa komið inn á borð lögreglunnar í tengslum við hátíðina. Þá hafi fimm fíkniefnamál hafa komið upp á Neskaupsstað.
Jónas segir erfitt að áætla hversu margir hafi verið á Eistnaflugi þar sem fjöldi Austfirðinga hafi sótt Neskaupsstað heim án þess að gista í bænum.
„Ætli þetta hafi ekki verið svona um 3.000 manns, kannski eitthvað fleiri,“ segir Jónas.
Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndarinn Freyja Gylfadóttir um helgina á tónleikum hljómsveitanna Behemoth, Brain Police, Muck og Vintage Caravan. Eins og sjá má var frábær stemning.
