Innlent

Ranglega sakaður um nauðgun: „Honum var sagt að hann ætti ekki skilið að lifa“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Maður vinnur ekki með ofbeldi," segir María Jimenez Pacifico
„Maður vinnur ekki með ofbeldi," segir María Jimenez Pacifico VÍSIR/DANÍEL
Þrjú ár eru síðan líf Maríu Jimenez Pacifico breyttist til frambúðar. Hinn þriðja febrúar 2012 hélt María í miðbæ Reykjavíkur ásamt vinkonu sinni en hún segir skemmtunina fljótt hafa breyst í martröð þegar hún vaknaði upp við það að ókunnugur maður var að nauðga henni.

Dagurinn í dag reyndist henni afar þungbær og var atburðurinn henni ofarlega í huga. Síðdegis í dag bárust henni síðan þær fregnir að góðvinur hennar hefði, nú um helgina, að ósekju verið sakaður um að hafa nauðgað henni og hótað lífláti.

„Honum var kennt um það sem gerðist, en hann er vinur minn, góður strákur, og átti engan þátt í þessu. Honum var sagt að hann ætti ekki skilið að lifa og ætti að drepa sig, eða að hann yrði drepinn,“ segir María.

Hefði getað farið verr

„Hann veit ekki hver það var sem hótaði honum og ógnaði en hann náði sem betur fer að bjarga sér úr aðstæðunum. Það sem ég veit er að maðurinn ætlaði að ráðast á hann og að þetta hefði getað endað illa,“ segir hún og bætir við að hún sé afar sorgmætt yfir atvikinu.

Sjá einnig: Addaði nauðgaranum á Facebook

„Maður vinnur ekki með ofbeldi. Fólk hafði samband við mig eftir umfjöllunina um mig og bauðst meira að segja til þess að lemja nauðgarann. En ég vil að réttlætinu verði fullnægt og stefni á það, enda komin með nýjan lögfræðing og kæruferlið í fullum gangi,“ segir hún.

Bjartsýn á framhaldið

María kærði nauðgarann til lögreglu en fékk síðasta sumar fréttir af því að málið yrði fellt niður þar sem ekki væru til staðar nægar sannanir, maðurinn hefði lent í bílslysi og glímdi af þeim sökum við minnistruflanir. Hún er afar ósátt við kerfið og lögmanninn sem ríkið skipaði henni, en með nýjan lögmann og frekari sannanir að vopni, er hún full bjartsýni.

„Ég tala um þetta því ég vil ekki að konur séu hræddar. Dagurinn í dag var erfiður, og ég er oft hrædd, en ég er bara mennsk. Maður lendir oft í svona tilfinningarússíbana og þannig verður það örugglega alltaf, en ég bind vonir við nýjan lögmann og er mjög jákvæð á framtíðina.“

María ræddi málið í Íslandi í dag á dögunum en viðtalið við hana má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Addaði nauðgaranum á Facebook

Maria Pacifico vaknaði með ókunnugan mann ofan á sér en var fljót að hugsa og veit því hver hann er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×